Ásbirningar
Ásbirningar röktu ættir sínar til Öndótts sem keypti land af landnámsmanninum Sleitu-Birni og bjó í Viðvík. Afkomandi Öndótts var Ásbjörn Arnórsson, sem ættin var kennd við. Um 1118 höfðu synir Ásbjörns héraðsvöld í Skagafirði. Þeir hétu Böðvar, Arnór og Þorsteinn. Þeir áttu og fóru með goðorð í Skagafirði og eitt í Húnavatnssýslu að auki. Ásbirningar héldu völdum í Skagafirði óslitið fram til 1246 er þeim var steypt af valdastóli í Haugsnesbardaga. Ættin skiptist í tvo ættleggi frá sonum Kolbeins Arnórssonar, sem var elsti sonur Arnórs Ásbjörnssonar. Skilgetinn sonur Kolbeins hét Arnór og óskilgetinn sonur hans var Tumi.
Skagafjörður og austurhluti Húnavatnssýslu var lengst af á valdasvæði Ásbirninga og eftir Örlygsstaðabardaga 1238 jók Kolbeinn ungi veldi þeirra, er hann náði stórum hluta Norðurlands. Árið 1241 náði hann Vestfjörðum til viðbótar og hélt því þar til Þórður kakali Sighvatsson hóf baráttu gegn veldi hans. Brandur Kolbeinsson, sonur Kolbeins kaldaljóss af skilgetna ættleggnum féll fyrir Þórði kakala í Haugsnessbardaga og eftir það færðust völdin í Skagafirði, eins og á mest öllu landinu, í hendur Sturlunga.
Í átökunum voru Ásbirningar löngum í bandalagi við Haukdæli gegn valdasöfnun Sturlunga. Ásbirningar og Haukdælir voru „gamlar“ og ráðsettar valdaættir, en Sturlungar voru „ný“ ætt sem reyndi að sameina undir eina stjórn héruð sem ekki höfðu áður lotið neinum einum herra. Eftir 1235 fóru þeir að sýna tilhneigingu í þá átt að ná undir sig öllu landinu og hefðu þeir borið sigur úr býtum í Örlygsstaðabardaga er líklegt að það hefði tekist. Lengst náðu Sturlungar eftir Haugsnesbardaga 1246. Næstu fjögur ár ríkti Þórður kakali yfir nær öllu landinu, þótt völd hans væru víða ótraust, einkum í Skagafirði.
Í Sturlungu virðast Ásbirningar einna herskáastir. Þeir voru miklir hershöfðingjar og stjórnmálamenn. Í framkomu þeirra birtist aldarháttur, sem ekki var bundinn við 12. eða 13. öld, heldur einkenndi allar miðaldir og eimdi enn eftir af á 17. öld. Hugarfar þessa tíma var afar ólíkt því sem nú þekkist. Grundvallaratriði í mannlegum samskiptum var persónuleg tryggð og trúnaður undirmanna við yfirmenn og öfugt. Slíkur trúnaður batt samfélagið saman í stað hlýðni nútímamanna við lög og reglur. Þá voru kurteisi og hæverska, hinir svokölluðu mannasiðir, öðruvísi en nú og mannslíf voru ekki heilög á sama hátt og í nútímanum. Opinber víg voru einfaldlega liður í stjórnmálabaráttu þessa tíma á sama hátt og atburðir í kosningabaráttu nútímans. Mannvíg voru því að sumu leyti „eðlilegur“ liður í samfélagsmynstrinu, á sama hátt og styrjaldir töldust til skamms tíma, í samskiptum ríkja á síðari öldum. Í Sturlungu er haldið utan um nokkurs konar viðskiptareikning, þar sem tíundaður er nákvæmlega hver áverki og sár sem veitt voru því samkvæmt Grágás urðu menn að gjalda fyrir í því sama eða meta til fjár. Þá var fólk mjög upptekið af því sem við köllum hjátrú eða hindurvitni, jafnt í trúarlegu lífi sem daglegu. Á þessum og fleiri forsendum verður að vega og meta aðstæður og atburði. Lítið þýðir t.d. að fordæma Kolbein unga eða aðra Ásbirninga fyrir gjörðir þeirra út frá sjónarhóli nútímamanna né heldur er hægt að byggja mat á atburðum fyrri alda á hugmyndum okkar um nútímasamfélag.
Hvernig samfélagi stjórnuðu þá Ásbirningar? Ímynd okkar af miðaldasamfélagi Evrópu er ef til vill óljós, en margir munu þó hafa hugmynd um aðalsstétt í köstulum, munkaklaustur, risastórar dómkirkjur og ánauðuga bláfátæka bændur, sem stóðu undir allri dýrðinni. Ferðalög um vatnaleiðir voru greiðastar. Kaupmenn bjuggu í víggirtum borgum og sigldu um Miðjarðarhaf, Eystrasalt og Norðursjó, en samgöngur á landi voru erfiðar. Sú mynd sem gefin hefur verið af íslenskum miðöldum hefur sjaldnast verið tengd hinni evrópsku. Ímynd íslenska miðaldasamfélagsins hefur mikið til mótast af frásögnum í Íslendingasögum, Landnámu og öðrum ritum, og menn hafa litið svo á að hér hafi verið samfélag bjargálna eða fátækra sjálfseignarbænda. Menn hafi verið frjálsir, en fremur fátækir.
Sé hins vegar litið til annarra heimilda en Íslendingasagna, sérstaklega Sturlungu og fornbréfa, kemur í ljós samfélagsmynd sem er ekki svo ólík hinni evrópsku, en mjög fjarri áðurnefndri mynd af fátæku jafnræðissamfélagi. Það blasa við risastórar dómkirkjur, klaustur, höfðingjasetur, jafnvel með virkjum og köstulum, fátækir leiguliðar á leigujörðum kirkju og höfðingja. Mikill ójöfnuður í eignum og samfélagsstöðu einkenndi íslenska samfélagið ekki síður en það evrópska. Engin merki eru um að helstu höfðingjar hafi þjáðst af fátækt, þvert á móti.
Ásbirningar áttu sjálfir fjögur af helstu höfuðbólum Skagafjarðar, Ás í Hegranesi, Reynistað, Víðimýri og Flugumýri. Líklega áttu þeir umtalsverðan fjölda leigujarða um allan Skagafjörð sem þeir gátu veitt stuðningsmönnum sínum og skjólstæðingum. Einnig hafa þeir ráðið miklu um hvaða bændur keyptu eða hverjir fengu að setjast að á stórbýlum héraðsins, þótt þau væru ekki formleg eign þeirra. Helstu bændur í Skagafirði voru þingmenn Ásbirninga, en Ásbirningar áttu líka þingmenn í fjarlægum héruðum, eins og í Lundarreykjadal í Borgarfirði.
Íslendingar og kannski sérstaklega Skagfirðingar, geta verið stoltir af Ásbirningum, á sama hátt og Danir eru stoltir af Kristjáni 4. eða Englendingar af Elísabetu meydrottningu, og Norðmenn af Hákoni konungi gamla. Menn geta speglað sig í mismunandi persónuleikum af Ásbirningaætt. Frægustu höfðingarnir voru Kolbeinn Tumason og Kolbeinn ungi Arnórsson og er fjallað sérstaklega um þá báða í þessu yfirliti.
Kolbeinn Tumason
Kolbeinn Tumason fæddist 1171 eða 1173 og féll í Víðinesbardaga 8. september 1208. Kolbeinn var landsþekkt skáld og goðorðsmaður. Faðir hans Tumi Kolbeinsson dó 1186 og Kolbeinn erfði Goðdælagoðorð eftir hann. Önnur goðorð í héraðinu voru í höndum frænda hans Kolbeins Arnórssonar og Þorgeirs Brandssonar. Kolbeinn fór til Noregs sumarið 1187 og árið 1191 var hans getið með þeim hætti að ljóst var að um tvítugt var hann orðinn mikils háttar maður. Sennilega var hann þá orðinn oddviti þeirra Ásbirninganna.
Árið 1191 var hann staddur á kaupstefnu á Gásum í Eyjafirði og Brandur Örnólfsson frá Tjörn í Svarfaðardal flýði á náðir hans og bað hann að bjarga sér. Brandur hafði sært mann til ólífis á kaupstefnunni. Kolbeinn kom Brandi úr landi án þess að spyrja kóng né prest og án þess að skeyta nokkuð um ættir eða mægðir. Aðdragandinn var sá að Brandur þessi, sem var Svarfdælingur, reið ótömdu hrossi til Vallakirkju í Svarfaðardal og batt á meðan Guðmundur Arason söng þar messu. Ótemjan slapp og varð milkill eltingaleikur við hana og spilltust tún hjá Sumarliða Ásmundssyni bónda, sem brást mjög illa við. Barði hann bæði Brand og hrossið til óbóta þegar hann náði til þeirra. Skömmu seinna voru bæði Brandur og Sumarliði staddir á kaupstefnunni á Gásum. Dulbjóst þá Brandur og lét eins og trúður, klæddi sig í kufl og hafði grímu fyrir andliti og reið á folaldi til að komast sem næst Sumarliða. Hann uggði ekki að sér og kom Brandur á hann höggi sem dró Sumarliða til dauða. Sumarliði þessi var náfrændi Guðmundar prests og var þetta leiðindamál fyrir hann. Sennilega sat það í honum.
Kolbeinn kvæntist frænku Guðmundar, Gyðríði Þorvarðardóttur, nokkrum árum seinna, sennilega 1196. Hún var bróðurdóttir Guðmundar prests og fékk hann til að þjóna kirkjunni á Víðimýri um aldamótin 1200.
Framgangur Kolbeins á tíunda áratug 12. aldar sýnir að hann tók fast á málum. Deilumál milli hans og Þórðar Sturlusonar af ætt Sturlunga leiddu til bardaga og mannfalls á Alþingi árið 1197. Ástæðan var sú að þingmaður Kolbeins, Þórður rauður á Oddsstöðum í Lundarreykjadal, deildi við Hámund Gilsson í Lundi, þingmann Þórðar. Faðir Þórðar var var Sturla ættfaðir Sturlunga. Bræður Þórðar voru Snorri í Reykholti og Sighvatur á Sauðafelli fyrir vestan, seinna á Grund í Eyjafirði og víðar. Þegar deilur Kolbeins og Þórðar komu til kasta Alþingis klofnaði þingheimur í tvennt. Þá sem studdu Kolbein og þá sem studdu Þórð. Slógust menn og nokkrir féllu áður en Páll Jónsson Skálholtsbiskup gekk á milli og sætti fylkingarnar. Kolbeinn stóð í fleiri deilumálum á þessum tíma, svo sem vegna Lönguhlíðarbrennu árið 1197, þar sem hann veitti Guðmundi dýra stuðning gegn Önundi Þorkelssyni og var Kolbeinn dæmdur í sektir fyrir aðild sína að brennunni.
Guðmundur Arason hafði verið prestur í tvo vetur hjá Kolbeini og Gyðríði á Víðimýri þegar Brandur Sæmundsson Hólabiskup dó 1201. Kolbeinn kallaði þá saman fund á Völlum í Svarfaðardal. Þar mættu helstu höfðingjar Norðlendinga og Gissur Hallsson Haukdælingur, sem bauð fyrir biskupsefni Magnús son sinn. Úr varð að Guðmundur var kjörinn biskup, enda vinsæll og hógvær maður og hefur Kolbeinn, að líkindum, talið að hann yrði auðvelt verkfæri sitt. Fór Kolbeinn til Hóla eftir biskupskjörið, tók búið í sínar hendur og fékk Guðmundur litlu ráðið. Var ákveðið að Sigurður Ormsson tæki við umsjón Hólastaðar og Kolbeinn fór heim aftur en vinskapur þeirra Guðmundar minnkaði.
Um 1205 skarst alvarlega í odda milli þeirra tveggja út af dómsmáli yfir Ásbirni presti, sem kallaður var pungur. Dæmdi Kolbeinn prestinn sekan skóggangsmann. Biskup hafnaði niðurstöðu dómsins, enda taldi hann að kirkjan ætti að dæma í málinu. Hann tók prestinn til sín og bannaði að nokkur prestur veitti Kolbeini kirkjulega þjónustu, né nokkrum sem í dómnum sat eða bar vitni. Mótspil Kolbeins var að fara til Hóla með skóggangsstefnu á húskarla biskups vegna samneytis við prestinn. Þá bannfærði biskup Kolbein. Sættir tókust í málinu í það sinn fyrir tilstilli Páls Jónssonar Skálholtsbiskups en áfram deildu þeir. Sagt er frá afleiðingum óvináttu þeirra á öðrum stað í heftinu, þar sem fjallað er um Víðnesbardaga, en þar féll Kolbeinn í valinn, ekki orðinn fertugur. Það urðu örlög fleiri Ásbirninga, eins og þeirra Kolbeins unga og Brands Kolbeinssonar.
Flettu upp á Víðimýri, á Sturlungaslóð, sem er undir Íslendingasögur á vefsíðinni Lifandi landslag, til að staðsetja Víðimýri og fá meira að heyra um staðinn.
Kolbeinn ungi
Kolbeinn ungi var einn glæsilegasti hershöfðingi Sturlungaaldar. Hann var talinn fæddur árið 1208 og skírður rótgrónu ættarnafni, sama ár og Kolbeinn Tumason frændi hans féll í Víðinesbardaga. Kolbeinn ungi var fyrst nefndur til sögu þegar sagt var frá andláti Arnórs föður hans í Noregi árið 1221. Sumarið 1224 kom Kolbeinn frá Noregi og fékk viðurnefnið ungi til aðgreiningar frá frænda sínum Kolbeini kaldaljósi Arnórssyni, sem bjó á Reynistað.
Vorið 1225 tók Kolbeinn ungi við ríki föður síns í Skagafirði. Sighvatur Sturluson, sem var giftur Halldóru Tumadóttur, föðursystur hans, var honum til ráðuneytis um héraðsstjórn fyrstu árin. Settist Kolbeinn að í Ási í Hegranesi og þótti fljótlega efnilegur höfðingi og sýndi að hann hafði sjálfstæðar skoðanir. Ekki leið á löngu þar til að hann lenti upp á kant við Guðmund biskup á Hólum, sem bannfærði hann.
Árið 1227 reið Kolbeinn suður í Reykholt, sennilega að undirlagi Sighvatar, til að biðja sér konu. Hann bað um hönd Hallberu dóttur Snorra Sturlusonar og kvæntist henni. Tveimur árum síðar (1229) fluttu þau í Víðimýri, að því er segir í Íslendinga sögu. Þangað kom frændi hans Sturla Sighvatsson og urðu þeir mestu mátar að því er virtist. Báðir voru kappsamir og reyndu þrek og þor hvers annars. Eitt sinn þegar þeir kepptu um hvor gæti stokkið hærra upp í virkisvegginn á Víðimýri, sem Snorri Sturluson hafði reist þar nokkru fyrr, sleit Sturla sin í fæti. Sagan sýnir þar á skemmtilegan hátt manngerðir þessara óforsjálu ungu frænda og að virkisveggir voru snarbrattir og hátt hlaðnir, sennilega úr torfi og grjóti.
Kolbeinn veitti Sturlu lið á Alþingi 1229 gegn tengdaföður sínum, Snorra í Reykholti, vegna Sauðafellsför þeirra Vatnsfirðinga þegar þeir rændu og brutu bæ Sturlu og drápu fólk hans. Snorri studdi Vatnsfirðinga þegar málið kom til þings og mun hafa vitað um aðförina. Þau Kolbeinn og Hallbera áttu erfiða sambúð. Sagt var að hún þjáðist af heilsuleysi og óhamingju. Á þinginu 1229 fór hún til búðar föður síns og dvaldi þar yfir þingtímann. Fór Kolbeinn heim án hennar en hún fór í Reykholt og var þar um skeið. Hún kom norður en stoppaði stutt og kom ekki í sæng Kolbeins, eins og segir í Íslendinga sögu. Fór hún aftur suður og þá til móður sinnar, Herdísar Bessadóttur, sem bjó á Borg á Mýrum. Árið 1231 var hún orðin það veik að henni var vart hugað líf. Guðmundur biskup kom að Borg á leið heim frá Alþingi. Með honum var Dálkur prestur, sem var góður læknir og sagðist hann geta gert laug, sem myndi lækna hana, ef hún þyldi. Hallbera þoldi laugina ekki og lést skömmu síðar. Þegar Kolbeinn frétti lát hennar fór hann suður á land og bað um hönd Helgu dóttur Sæmundar í Odda, og var hún gift honum.
Kolbeinn og Snorri Sturluson deildu út af arfi eftir Hallberu, sem endaði þannig að þeir sættust á að Snorri fengi helming þeirra goðorða sem Kolbeinn átti en Kolbeinn átti að hafa umsjón með goðorðunum og veita Snorra lið á þingum. Til að treysta sættina var Arnbjörg systir Kolbeins gift Órækju syni Snorra. Það sýnir kænsku Kolbeins að hann galt Snorra í raun aldrei neitt eftir Hallberu, og hélt öllu sínu.
Kolbeinn tók á móti Guðmundi biskupi góða þegar hann kom til Skagafjarðar 1232. Hann beið hans með vopnað lið í Viðvík og tvístraði þar liði biskups og hneppti hann í stofufangelsi þar sem hann mátti einungis hafa félagsskap tveggja presta. Máttu þeir syngja messur, en ekki fara neitt. Endaði sú vist með því að biskup aflétti banninu af Kolbeini. Eftir það var friður í nokkur ár. Sighvatur Sturluson bjó á Grund í Eyjafirði og var ekki eins vinveittur Kolbeini og fyrrum en hann var vinsæll höfðingi og átti ítök í skagfirskum bændum sem leituðu hans ráða. Kolbeinn var of kappsfullur til að ná vináttu eldri manna í Skagafirði, sem höfðu vingast við Sighvat þegar hann aðstoðaði Kolbein við að fóta sig í forystuhlutverkinu, á árunum 1225-1230. Þeirra á meðal voru nokkrir stórbændur eins og Kálfur Guttormsson á Miklabæ, Hallur Þorsteinsson í Glaumbæ og fleiri. Kolbeinn þoldi hvorki þeim né öðrum Skagfirðingum nokkra uppivöðslusemi og taldi sig nauðugan til að beita þá vopnum til að beygja þá og hlýða sér. Í hita leiksins og með liðveislu Órækju Snorrasonar mágs síns hélt hann með her norður til Eyjafjarðar á fund Sighvats, sem barst njósn af för þeirra og snéru þeir þá við. Á heimleiðinni kom Kolbeinn við á Miklabæ og lét taka Kálf og Guttorm son hans af lífi.
Þetta háttalag Kolbeins olli mikilli spennu bæði í Skagafirði og Eyjafirði og menn voru í hópum undir vopnum. Svo mikið gekk á að bæði Kolbeinn og Sighvatur leituðu liðs Guðmundar biskups, þótt þeir væru svarnir óvinir hans. Þeir Reykholtsfeðgar, Snorri Sturluson og Órækja Snorrason, voru bandamenn Kolbeins unga þegar þarna kom sögu og voru þeir mjög vinveittir Guðmundi. Ákvað biskup því að fara að Flugumýri og styðja Kolbein, sem aftur bjóst til norðurferðar.
Á sama tíma og Kolbeinn var á leið norður í Eyjafjörð með 720 manna lið kom Sighvatur vestur í Skagafjörð með 480 manna lið. Hittust herirnir í Flatatungu og bjuggust til bardaga. Sighvatur bjó um sig uppi á bæjarhúsunum og hugðist verjast þar. Áður en til bardaga kom leitaði sætta maður úr liði Kolbeins, sem var vinveittur Sighvati. Kolbeinn brást reiður við en svo fór þó að ekkert varð úr bardaga og Magnús Skálholtsbiskup var síðar fenginn til að sætta málin.
Eftir þetta snérust mál á þann veg um skeið að misklíð óx milli Snorra Sturlusonar og Kolbeins unga en Sighvatur og Kolbeinn vinguðust á ný. Vorið 1235 bjóst Kolbeinn til utanferðar og fékk Sighvati forráð yfir ríki sínu, sem fékk það Þórði kakala syni sínum og sat hann á óðali Kolbeins á Flugumýri og fór vel með. Kolbeinn fór fyrst til Noregs og þaðan til Rómar á fund páfa til að losna undan syndum vegna framferðis síns við Guðmund biskup. Það sýnir kannski best ofurvald kirkjunnar að þeir skyldu báðir, Sturla Sighvatsson og Kolbeinn ungi, verða að fara á fund páfa til syndaaflausnar í deilumálum þeirra gegn biskupi og kirkju. Kolbeinn kom aftur til Noregs og fór þá á fund Hákonar Noregskonungs en ekki varð hann handgenginn honum, eins og flestir aðrir íslenskir höfðingjar í þá daga. Það hlýtur að hafa þótt tíðindum sæta þar sem konungur lagði mikið kapp á að gera íslenska höfðingja sér handgengna og ásældist völd í landinu, leynt og ljóst. Heim kominn tók Kolbeinn aftur við ríki sínu í Skagafirði og brátt uxu væringar á ný milli hans og þeirra Grundarfeðga, Sighvats og Sturlu.
Saga Kolbeins unga eftir þetta er nátengd afdrifaríkustu atburðum Sturlungaaldar allt til dauðadags árið 1245. Árið 1238 leiddi hann her Ásbirninga og Haukdæla ásamt Gissuri Þorvaldssyni, tryggum bandamanni sínum, gegn Sturlungum í Örlygsstaðabardaga. Þar unnu þeir glæsilegan sigur en engan veginn endanlegan. Höfuð andstæðingur Kolbeins eftir það var Þórður kakali, fyrrum vinur hans og bústjóri. Þórður var með Hákoni konungi þegar Kolbeinn lét drepa föður hans og bræður á Örlygsstöðum og komst ekki til baka úr konungsgarði fyrr en árið 1242. Áttust þeir Kolbeinn og Þórður við í Flóabardaga, sem sagt er frá annars staðar hér á heimasíðunni.
Árið 1239 var Kolbeinn að leikum í Hörgárdal og skaðaði sig á bringunni þannig að sár opnaðist, sem ekki vildi gróa. Átti hann lengi við það mein að stríða. Þetta háði honum mjög síðustu æviárin og hann hefur sennilega verið sárkvalinn þegar hann stýrði Flóabardaga í júlí 1244 þar sem hann barðist við Þórð kakala. Deilum þeirra Kolbeins og Þórðar var skotið til Noregskonungs, því Þórður var hirðmaður hans. Ekki varð úr því að konungur skæri úr um deilumál þeirra því Kolbeinn lést af brjóstmeininu í júlí 1245. Við völdum hans í Skagafirði tók Brandur Kolbeinsson frændi hans á Stað í Reyninesi. Áður en Kolbeinn dó hafði hann ákveðið, til að tryggja friðinn, að afhenda Þórði kakala Norðausturland sem hann hafði tekið undir sig með sigri í Örlygsstaðabardaga. Eftir það fór Þórður með völd vestan lands og norðan og var þá komin upp svipuð staða og fyrir Örlygsstaðabardaga að Sturlungar réðu Norðausturlandi og Vesturlandi, en Ásbirningar Skagafirði og höfðu stuðning Haukdæla.
Textinn byggist á köflum í ritinu Á Sturlungaslóð í Skagafirði, sem Byggðasafn og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga gáfu út árið 2003 og félagið á Sturlungaslóð gaf út aftur árið 2017. Höfundar texta eru: Árni Daníel Júlíusson og Sigríður Sigurðardóttir. Teikn. Bryndís Björgvinsdóttir.