top of page

Selvík á Skaga

Selvik2.jpg

Frá Selvík á Skaga var haldið í Flóabardaga þann 25. júní 1244. Einu sjóorrustuna sem háð hefur verið við Ísland þar sem Íslendingar skipuðu bæði lið. Þar börðust Kolbeinn ungi foringi Ásbirninga og Þórður kakali Sighvatsson af ætt Sturlunga. Þórður sigldi skipum sínum úr Trékyllisvík á Ströndum og mætti flota Kolbeins á miðjum Húnaflóa. 

 

Félagið á Sturlungaslóð fékk leyfi til að setja upp skilti í landi Akra, gegnt Selvík. Á skiltinu er sagt frá þessum sögulega og ógurlega atburði.

Flóabardagi

Aðdragandi bardagans var sá að Þórður kakali safnaði 210 manna liði og öllum stærri skipum á Vestfjörðum. Fyrst fór hann á Hornstrandir og síðar á Strandir. Þangað barst fregn um að Kolbeinn ungi drægi saman skip og lið og ætlaði að sigla móti Þórði en sumt af liði hans ætti að senda landveg. Þórður lét þá búa skip sín grjóti og sigldi norður á Húnaflóa. Ætlun hans var að halda til Eyjafjarðar.

Kolbeinn lét draga saman öll stórskip í Norðlendingafjórðungi og safnaði þeim saman í Selvík við vestanverðan Skagafjörð. Þangað komu Eyfirðingar með mikið lið. Kolbeinn setti Brand Kolbeinsson frænda sinn yfir 240 manna lið, og hélt hann landveginn vestur, á móti mögulegum landher Þórðar, en þegar Brandur frétti af sjóhernaðaráætlunum Þórðar settist hann um kyrrt með lið sitt í Miðfirði.

 

Kolbeinn sigldi flota sínum út úr Selvík sama dag og Þórður lagði á hafið frá Ströndum, þann 24. júní. Hafði Kolbeinn 20 skip með 470 mönnum og voru skipin alskjölduð fram til siglu. Þegar Þórður hafði siglt út á miðjan flóann með flota sinn sagði maður á Snækollinum, sem var það skipanna sem sigldi fremst, að honum sýndist selir liggja á ísum. Greinilega var kalt í ári og íshrafl á flóanum. Þetta var snemma morguns og sól ekki hátt á lofti. Þegar betur var að gáð kom í ljós að þetta voru ekki selir heldur floti Kolbeins unga. Gerði nú logn. Þórður lét fella segl og ákvað að leggja þegar til orrustu og var róið sem ákafast norður flóann að flota Kolbeins. Er menn Kolbeins sáu hvað lið Þórðar aðhafðist felldu þeir einnig segl, bundu skipin saman og biðu.

Þórður kallaði til mótherjanna og bauð grið öllum Eyfirðingum og öðrum norðan Öxnadals­heiðar sem væru í liði Kolbeins. Óttuðust Kolbeinsmenn að einhverjir fornvinir Sighvats á Grund, föður Þórðar, myndu hlýða kallinu og kölluðu á móti að Þórður skyldi þegja og báðu honum bölbæna.

Æptu menn heróp og laust saman í orrustu. Þórður og menn hans voru ákveðnir í að gera eins harða hríð að Kolbeinsmönnum og þeir gátu, því eina von þeirra var að riðla liði Kolbeins með harðri árás á meðan menn voru fullsprækir. Gerðu þeir svo hrikalega grjóthríð að Kolbeinsmenn gátu ekkert annað gert en að hlífa sér. Lið Þórðar, sem hafði fyllt skip sín grjóti stóð þar vel að vígi því hinir höfðu lítið grjót. Hallaði því mjög á Kolbeinsmenn í fyrstu. Það varð Kolbeini og hans mönnum einnig í óhag að fáir góðir kunnáttumenn í siglingum voru í liði hans en þeim mun fleiri í liði Þórðar. Flestir liðsmenn Kolbeins flúðu undan grjóthríðinni aftur fyrir siglu á skipunum og réðust menn Þórðar af Ógnarbrandinum, vestasta skipinu í vestfirska flotanum, til uppgöngu.

 

Þegar grjótið var á þrotum hófst höggorrusta og gengu menn Þórðar hart fram. Leit út fyrir að Norðlendingar myndu tapa. Kolbeinn kallaði þá menn sína til atlögu. Stóð hann á skipi sínu, sem búið var svokölluðum kastala og skipaði fyrir. Sjálfur var hann ekki bardagafær vegna brjóstmeins sem hann hafði hlotið fjórum árum fyrr og gréri ekki. En stjórnkænn var hann og sendi lið af skipi sínu þangað sem Þórðarmenn höfðu yfirhöndina og tókst að snúa atburðarásinni við. Hann lét losa sum skip sín úr tengslum og leggja að skut á skipum Þórðar og ætlaði að umkringja skip hans. Sagði Kolbeinn það skömm ef Norðlendingar töpuðu orrustunni því þeir hefðu bæði meira lið og fleiri og stærri skip.

 

Skip Þórðar voru nær mannlaus þegar Kolbeinn lét leggja skipum sínum að þeim en Þórður brást hart við og réðist til atlögu og drap sjálfur skipstjórann á einu skipi Kolbeins og náði því. Voru allir menn Kolbeins þar drepnir eða fleygt fyrir borð. Á meðan á þessu stóð náðu Kolbeinsmenn að koma stafnljáum í skip Þórðar og drógu þau inn á milli sinna. Flúðu Þórðarmenn af þeim yfir á næstu skip, sem voru þá svo yfirhlaðið mönnum að það vatnaði yfir borð.

 

Kolbeinsmenn gerðu nú harða hríð að Ógnarbrandinum fyrrnefnda. Þórður hljóp þangað með flokk sinn og varð harður bardagi, ekki síst eftir að Norðlendingar þekktu Þórð og hvöttu hvern annan til að láta kakalann ekki komast undan. Kolbeinsmenn sóttu á og sumir Þórðarmenn kusu að losa sig úr tengslum og flýja. Þeir sem voru á teinæringum voru léttir í vöfum og létu sig hverfa. Orrustan hélt þó áfram og menn Kolbeins tóku að ganga á skip Þórðar. Vörðust menn enn á Trékyllinum, Snækollinum og Rauðsíðunni þar sem Sanda-Bárður var foringi. „Var í þessari svipan allri saman mest sú orrustan, að kastað var handöxum og bolöxum í milli skipanna; þá var og skotið selskutlum og hvaljárnum og barið öllu því er til fékkst, bæði beitiásum og árahlumum,“ segir í Þórðar sögu kakala. Ógnar­brandurinn var farinn að leka og jusu menn þar sem ákafast. Kom í ljós að hann var brákaður í botninn og vildu menn losa skipið frá en Þórður bannaði það. Lögðu þó æ fleiri af skipum Þórðar frá og orrustan dvínaði og undanhald hófst.

Öll skip Þórðar nema þrjú gátu losað sig. Hafði þá verið barist í fimm tíma að því er talið er og menn Kolbeins voru svo örmagna að þeir megnuðu ekki að halda á eftir Þórði. Aðeins tvö létt skip úr flota Kolbeins reyndu að elta hann en lögðu ekki í að ráðast til uppgöngu á skip hans. Yfir 70 menn höfðu fallið af liði Kolbeins og margir voru sárir af úrvalssveit Þórðar og lágu nokkrir helsærðir menn í skipunum, sem Þórður varð að skilja eftir.

 

Kolbeinn fór á eftir Þórði. Hann kom í Trékyllisvík og hélt svo norður og rændi allar Strandir og lagði flota sínum á Ísafjörð en Þórður og menn hans komust undan. Um veturinn var ákveðið að Hákon konungur yrði að gera út um deilur þeirra Þórðar kakala og Kolbeins unga, þar sem Þórður var hirðmaður konungs.

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir.

bottom of page